Afhendingaröryggi Veitna á rafmagni staðfest

06. July 2020 - 22:35

Niðurstöður START hópsins, starfshóps um rekstrartruflanir, fyrir 2019 staðfesta mælingar Veitna um að raforkuöryggi til viðskiptavina Veitna hafi verið afar stöðugt á árinu. Um töluverða bætingu er að ræða frá fyrri árum sem þó voru fremur góð. Í skýrslu START-hópsins fyrir árið 2019 kemur fram að hjá dreifiveitum rafmagns í þéttbýli sé meðallend skerðingar yfirleitt innan við klukkustund. Hjá Veitum var þessi stuðull 7 mínútur árið 2019 sem er töluverð bæting og virkilega góður árangur en þetta þýðir að áreiðanleikastuðull rafmagns hjá Veitum er 99,99867%. Á árunum 2014-2018 var stuðullinn á bilinu 19-38 mínútur þannig að stuðull uppá 7 mínútur 2919 þýðir að afhendingaröryggi Veitna á rafmagni er töluvert yfir meðaltali síðustu ára og töluvert yfir meðaltali afhendingaröryggis á landsvísu.

Þessar fréttir eru virkilega jákvæðar fyrir allan þann fjölda starfsfólks Veitna sem vinnur að því allan ársins hring að tryggja framúrskarandi þjónustu til íbúa á starfsvæði Veitna.

START - Starfshópur um rekstrartruflanir er samstarfsvettvangur HS Veitna, Landsnets, Norðurorku, Orkubús Vestfjarða, Orkustofnunar, Veitna ohf, RARIK og Rafveitu Reyðarfjarðar um skráningu upplýsinga um rekstrartruflanir í raforkukerfinu og úrvinnslu þeirra. START hefur útbúið kerfi sem veiturnar hafa skráð rekstrartruflanir í frá árinu 1990.

Nálgast má skýrsluna hér: www.truflun.is/ - Gæði raforku