Luku tengivinnu átta tímum á undan áætlun

18. August 2020 - 19:13

Þessa stundina er verið að hleypa heitu vatni aftur á þau hverfi höfuðborgarsvæðisins sem hafa verið heitavatnslaus frá því í nótt. Framkvæmdir hafa gengið vonum framar og lauk þeim ríflega átta klukkustundum á undan áætlun. Ráðgert var að hefja áhleypingu um kl. 02:00 í nótt og að allir væru komnir með heitt vatn kl. 9 í fyrramálið. Nú lítur út fyrir að sú verði raunin fyrir miðnætti. Um er að ræða eina umfangsmestu hitaveitulokun á vegum Veitna. 

Gera má ráð fyrir að nokkrar klukkustundir taki að ná upp fullum þrýstingi í kerfinu en það gerist á mismunandi tíma eftir hverfum, seinast í Hafnarfirði.

Veitur vilja þakka almenningi, fyrirtækjum og stofnunum fyrir að sýna framkvæmdinni, og heitavatnsleysinu sem henni fylgdi, skilning. Hún var liður í að tryggja enn ábyrgari nýtingu og sjálfbærni þeirrar dýrmætu auðlindar sem jarðhitinn í Reykjavík og Mosfellsbæ er.