Samvinna í uppbyggingu rafmagnsinnviða

12. November 2020 - 10:55

Veitur ohf og Strætó bs hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þar sem fyrirtækin hyggjast sameina krafta sína til að tryggja að uppbygging rafmagnsinnviða Veitna taki tillit til þarfa Strætó og annarra vistvænna ferðamáta. Með þessu vilja fyrirtækin, sem bæði eru í eigu almennings, leggja sitt að mörkum til að lágmarka samfélagslegan kostnað við orkuskipti í samgöngum á Íslandi.

Í þessum tilgangi verður settur á fót starfshópur sem meta á umfang verkefnisins miðað við starfsemi Strætós og með tilliti til annarra vistvænna ferðamáta. Kolefnisspor þeirra strætisvagna sem nú eru í notkun verður skoðað og leitað leiða til að minnka það og í framhaldinu metinn sá ávinningur er fengist við rafvæðingu vagnanna. 

Svo ná megi samlegðaráhrifum þarf m.a. að meta áhrif mismunandi hleðsluaðferða strætisvagna á rafdreifikerfið og velja staðsetningar fyrir hleðslustöðvar strætisvagna þar sem rafdreifikerfi Veitna getur annað þeim á hagkvæman hátt. Langtímaáætlanir Veitna verða skoðaðar og hvernig best má ná samlegð við hreinorkuvæðingu strætóflotans.

Gert er ráð fyrir að með samstarfinu megi ná töluverðum ávinningi rafvæddrar framtíðar fyrir bæði félögin en þau hafa hvort fyrir sig sett sér metnaðarfulla stefnu sem styður við sjálfbæra og kolefnislausa starfsemi. Stefnt er að því að í framtíðinni verði samgöngumiðstöðvar Strætó miðpunktur fyrir sjálfbærar samgöngur og mannlíf.

Jóhannes Rúnarsson, Strætó:

“Strætó leggur áherslu á að innleiða notkun á vistvænum orkugjöfum ásamt því að nýta náttúruauðlindir á skynsaman hátt. Við höfum nú þegar stigið skref í átt að rafvæðingu flotans og á næstu árum mun hlutur hreinorkuvagna aukast verulega með jákvæðum áhrifum á umhverfið,” segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.

Jóhannes Þorleiksson, Veitur:

“Strætó bs hefur þegar hafið að rafvæða flotann og hefur það gefið góða raun. Með þeim skrefum sem hafa verið tekin er Strætó í fremstu röð í orkuskiptum sé borið saman við nágrannalöndin.  Við hjá Veitum viljum tryggja að rafdreifikerfið sé til reiðu til frekari rafvæðingar, bæði til að draga úr rekstrarkostnaði sem og í sameiginlegri baráttu okkar gegn loftslagsvánni,“ segir Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitu Veitna.

Mynd: Skjáskot af Teams þegar viljayfirlýsingin var undirrituð með rafrænum hætti. 
Starfshópurinn mun skila af sér skýrslu í byrjun febrúar.