Vegna vatnstjóns í Háskóla Íslands

21. January 2021 - 14:42

Veitur vinna nú hörðum höndum að því að greina hvað varð þess valdandi að hið mikla magn vatns flæddi inn í Háskóla Íslands í morgun. Starfsfólk Veitna var að störfum í nótt og ljóst er að eignatjón er umtalsvert en sem betur fer urðu engin slys á fólki.

Veitur harma atvikið og þær afleiðingar sem það hefur haft í för með sér fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands og aðra.

Veitur höfðu strax í morgun samband við rektor Háskóla Íslands og buðu fram alla þá aðstoð sem hægt er að veita í þessum erfiðu aðstæðum. Einnig hafa Veitur verið í góðu sambandi við aðra hagaðila.

Ljóst er að upptök þessa kaldavatnsleka eru í lokahúsi vatnveitu sunnan við aðalbyggingu HÍ. Hans varð vart í stjórnstöð Veitna um klukkan 01:00 í nótt og var bakvakt kölluð út í kjölfarið. Hálftíma eftir að bakvakt kom á staðinn var búið að staðsetja stofnæðarlokann og loka fyrir.

Lekinn stóð í 75 mínútur, var um 500l/s og runnu alls út um 2.250 tonn af vatni. Skýringin á þessu mikla vatnsmagni er sú að stofnæðin sem fór í sundur er stór enda er hún ein af megin flutningsæðum á köldu vatni fyrir Vesturbæ Reykjavíkur. Unnið hefur verið að endurnýjun hennar, sem og öðrum Veitulögnum á Suðurgötu, undanfarið.

Veitur hafa nú þegar hafið nákvæma greiningu á atvikinu og munu kappkosta að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst.

Fulltrúar vátryggingarfélags Veitna hafa skoðað aðstæður í dag.