Saga fráveitunnar loksins skráð

14. April 2021 - 16:04

Bókin CLOACINA – Saga fráveitu er nú komin út á vegum Veitna þar sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur rekur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega 100 árin. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk bókina afhenta á þeim slóðum er forsíðumynd hennar er tekin sem er í námunda við hið fornfræga almenningssalerni í borginni, Núllið í Bankastræti. Forsíðumyndin sýnir opna skólprennu við hlið vatnsbrunns í Bankastræti.

Af umhverfisástæðum var bókin prentuð í litlu upplagi. Hún er hins vegar öllum aðgengileg gjaldfrjálst hér á vef Veitna, veitur.is/cloacina, auk þess sem eintökum verður dreift til skóla og bókasafna.

Gyðja hreinlætis

Heiti bókarinnar er dregið af rómverskri gyðju sem ríkti yfir aðalræsi borgarinnar eilífu, Cloaca Maxima, og var hún gyðja hreinlætis. Þó að fólk tengi klóakið við óþrif þá er öflug fráveita, ásamt heilnæmri vatnsveitu, grundvöllur hollra samfélaga. Fráveitur eru fokdýr mannvirki og því hefur lagning þeirra oft á tíðum staðið í stjórnvöldum og almenningi. Í bókinni rifjar Guðjón upp ástand heilbrigðismála í höfuðstaðnum meðan skólp rann í opnum rennum eða bara eftir götunum sjálfum og tildrög og sögu þeirra miklu ræsa sem leystu skítalækina af hólmi. 

Verkefni Veitna frá 2006

Veitur tóku við uppbyggingu og rekstri fráveitu í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð árið 2006. Þá þegar höfðu verið reistar öflugar dælu- og hreinsistöðvar í Reykjavík, sem einnig taka við skólpi frá Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar og hreinsa það. Í bókinni rekur Guðjón þá uppbyggingu og þau umskipti sem orðið hafa á síðustu árum í fráveitumálum sveitarfélaganna tveggja á Vesturlandi auk Kjalarness. Þeir eru ófáir milljarðarnir sem varið hefur verið til þeirra umbóta en, eins og áður, er langstærsti hluti þessara miklu fráveitumannvirkja neðanjarðar og ósýnilegur.

Saga fráveitu bætist í safnið

Í tilefni 100 ára afmælis vatnsveitu í Reykjavík, árið 2009, gaf Orkuveita Reykjavíkur út á prenti sögur vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu í Reykjavík. Þarna bætti stjórn Veitna úr, árið 2018, þegar hún ákvað að fá sögu fráveitunnar skráða.
Leitað var til Guðjóns Friðrikssonar, sagnfræðings og rithöfundar, sem átt hefur mikinn þátt í að halda sögu höfuðborgarinnar til haga. Hann var einn ritstjóra sögu Reykjavíkur, hefur skráð sögu margra húsa í bænum og nú nýverið sögu Faxaflóahafna. Honum er einkar lagið að færa okkur fortíðina á lipru máli og lifandi frásögn hans prýða margar sjaldséðar ljósmyndir sem skila ilminum af merkri sögu fráveitu í Reykjavík.

Á myndinni eru: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Arndís Ósk Ólafsdóttir, forstöðukona vatns- og fráveitu Veitna, Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna og Guðjón Friðriksson, höfundur bókarinnar. Ljósmyndari: Sigurður Ó. Sigurðsson, sigosig.com.