Stór hluti þjóðarinnar fær snjallmæla

04. February 2022 - 09:11

-Uppsetning mæla hafin
-Kostnaður ríflega 5 milljarðar
-Samstarf við viðskiptavini mikilvægt

Veitur hófu í vikunni uppsetningu snjallmæla hjá viðskiptavinum sínum en áformað er að setja upp um 160 þúsund slíka mæla og tengja við hugbúnaðarkerfi á næstu árum. Fyrsta hverfið til að fá snjallmæla á starfssvæði Veitna er í póstnúmerinu 103 í Reykjavík, Háaleitis- og Bústaðahverfi. Gert er ráð fyrir að það taki yfir þrjú ár að setja upp snjallmæla hjá öllum viðskiptavinum en Veitur reka hitaveitur fyrir um 65% landsmanna og dreifa rafmagni til um 60% þeirra. Að mælaskiptunum loknum verður því meirihluti heimila og fyrirtækja á Íslandi komin með snjallmæla.  Kostnaður við þetta verkefni er ríflega 5 milljarðar króna.

Mikill ávinningur

Snjallmælar eru eðlilegt og jákvætt skref í þróun veitukerfa og hafa stjórnvöld víða um heim gert kröfu um uppsetningu slíkra mæla og verið er að hætta framleiðslu eldri gerða mæla. Ávinningur af snjallmælum fyrir viðskiptavini og samfélagið í heild er mikill. 

Allur álestur af mælum verður framvegis rafrænn og viðskiptavinir Veitna fá mánaðarlega uppgjörsreikninga í stað áætlunarreikninga ellefu mánuði ársins og árlegs uppgjörreiknings. Mánaðarlegir reikningar verða eftir uppsetningu snjallmælis byggðir á raunnotkun. Því fylgir að viðskiptavinir geta átt von á árstíðarbundnum sveiflum í orkuútgjöldum, sér í lagi vegna hitaveitunotkunar. Á móti kemur að viðskiptavinir greiða einungis fyrir það sem notað er, ekki áætlaða notkun.

Viðskiptavinir munu fá aðgang að ítarlegum notkunarupplýsingum á Mínum síðum á vef Veitna og verður þeim því kleift að fylgjast betur með, breyta notkun sinni og fá þannig tækifæri til að nýta raforkuna og varmann á hagkvæmari hátt. Í framtíðinni veðrur hægt að tengja rafmagnsmælana við snjöll húskerfi.

Veitur munu geta fylgst náið með gæðum rafmagns og hitastigi vatnsins og út frá þeim upplýsingum forgangsraðað viðhaldi og að sama skapi upplýst viðskiptavini ef óeðlilegar breytingar verða á notkun eða grunur leikur á að eitthvað sé bilað hjá þeim. Fyrirtækið getur einnig þróað þjónustu sína í átt að snjallari framtíð og náð meiri skilvirkni í rekstri auk þess sem hægt verður að nýta þær dýrmætu auðlindir sem jarðhitinn og  neysluvatnið eru með enn ábyrgari hætti.

Öflugir samstarfsaðilar

Eftir útboð, sömdu Veitur við slóvenska fyrirtækið Iskraemeco um kaup á framsækinni lausn til að snjallvæða mæla raf-, hita-, og vatnsveitu; hvorttveggja á mælum og hugbúnaðarkerfum. Um er að ræða rafmagnsmæla og samskiptalausn frá Iskraemeco og  varma- og vatnsmæla frá Diehl Metering. Lausin mun byggja á léttbands (e. Narrowband (NB-IoT)) samskiptatækni sem veitt verður af Vodafone Ísland. 

Securitas sér um uppsetningu mælanna og er þar byggt á hugbúnaðarkerfum fyrirtækisins og traustum þjónustubakgrunni þess. Securitas hefur yfir að ráða einum stærsta hóp rafiðnmenntaðs fólks á landinu. 
Við mælaskiptin verður lögð áhersla á umhverfisvæn vinnubrögð og verða eingöngu notaðir rafmagnsbílar til verksins og öllum eldri mælum verður fargað á ábyrgan hátt. 

Samvinna Veitna og viðskiptavina mikilvæg

Hvernig til tekst í þessu stóra verkefni veltur talsvert á því að viðskiptavinir Veitna viti af verkefninu og að vel gangi að komast að til að skipta um mæla. Þegar skipt er um 160 þúsund mæla skiptir miklu fyrir kostnaðinn við verkefnið hvort fólk staðfesti tímabókanir og sé heima þegar skipta á um mæli. Til þess að auka meðvitund viðskiptavina er fjöldi samskiptaleiða notaður, m.a. auglýsingar, tölvupóstur, bréf og bæklingar. Með aukinni vitund verða öll samskipti greiðari og kostnaður við mælaskiptin minni þannig að sem mest hagkvæmni næst í uppfærslunni.

 

Ljósmynd: Atli Már Hafsteinsson. 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.