Átak í innviðum fyrir rafbíla á Akranesi

07. júní 2019 - 10:56

Í dag var undirritað samkomulag milli Akraneskaupstaðar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um uppbyggingu innviða í bænum fyrir rafbílaeigendur. Byrjað verður strax í ár og verkefninu lokið á því næsta. Komið verður upp hleðslum á allt að sex stöðum í bænum. Þá munu Akraneskaupstaður og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum. Átta milljónir króna verða í sjóðnum.

Það voru þau Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sem undirrituðu samkomulagið nú í morgun.

Fleiri en 200 rafbílar skráðir á Skaganum

Íbúar og fyrirtæki á Akranesi hafa verið öflug við að taka þátt í orkuskiptum í samgöngum. Um síðustu mánaðamót voru skráðir 211 tengjanlegir rafbílar í sveitarfélaginu. Miðað við mannfjölda er það svipað hlutfall og á landinu öllu en orkuskiptin ganga örast fyrir sig á suðvesturhorninu.

Tveir þættir samkomulagsins

Í fyrsta lagi verða byggðir upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á fjórum stöðum; við bæjarskrifstofurnar við Stillholt, við íþróttasvæðið á Jaðarsbökkum, við Brekkubæjarskóla og golfskálann þar sem ýmist félagsstarf fer fram. Það mun ráðast af reynslunni á þessum fjórum stöðum hvaða tveir staðir munu bætast við. Bærinn ráðgerir að bjóða hleðsluþjónustuna út en Veitur leggja til innviðina. Þetta er ekki síst hugsað fyrir þá eigendur rafbíla sem eiga erfitt með að hlaða heimafyrir, til dæmis þar sem ekki eru sér bílastæði fylgjandi húseign.

Þá munu OR og Akraneskaupstaður leggja fjórar milljónir króna hvort í sjóð til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Auglýst verður eftir umsóknum og úthlutunarreglur kynntar á næstu vikum.

OR og Veitur eru reiðubúin til samsvarandi samstarfs við önnur sveitarfélög á starfssvæði þeirra.