Bilanir á Deildartunguæð

22. júní 2020 - 15:45

Nú standa yfir viðgerðir á tveimur stöðum á Deildartunguæð, flutningslögn hitaveitu frá Deildartungu til Akraness og Borgarness, eftir að leki kom að henni þar sem hún liggur yfir Andakílsá og við bæinn Varmalæk í Borgarfirði. Lekinn er áætlaður 5-10 l/sek en meðalrennsli árinnar sjálfrar er að jafnaði um 3.000-22.000 l/sek. Í hádeginu var lokað fyrir rennsli vatnsins frá Deildartungu en einn tímafrekasti hluti viðgerðanna er að tæma lögnina. Fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun eru á verkstað við Andakíl og sinna þar eftirliti og ráðgjöf, m.a. varðandi tæmingu lagnarinnar en losa þarf um 200 m3 af heitu vatni á öruggan hátt.

Meðan á viðgerð stendur geta einstakir notendur í dreifbýli milli Deildartungu og Borgarness orðið heitavatnslausir vegna bilunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að heitavatnslaust verði í Borgarnesi og á Akranesi þar sem íbúar og fyrirtæki fá heitt vatn úr safntönkum hitaveitu. Ef áætlanir ganga eftir verður hægt að ljúka viðgerð í kvöld eða í nótt.

Mynd: Frá Deildartunguhver

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.