Borað á sex stöðum í borginni

29. ágúst 2019 - 08:09

Dagana 29. ágúst -17. september munu Veitur bora nokkrar grunnar rannsóknarborholur innan borgarmarkanna. Tilgangurinn með borununum er að fylgjast betur með grunnvatnsborði innan borgarmarkanna og fá betri skilning á þeim viðtaka sem berggrunnurinn í Reykjavík er.

Upplýsingarnar sem fást eru einnig nauðsynlegar vegna uppfærslu á lektar- og vatnafarskorti Reykjavíkurborgar. Vonir standa til þess að lektarkortið geti í framtíðinni gagnast við innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna og til að meta fýsileika þeirra á mismunandi stöðum í borginni. Innan borgarmarkanna hefur í gegnum tíðina verið boraður fjöldi holna, flestar vegna hitaveitu eða vegna mannvirkjagerðar. Fáar þeirra eru aðgengilegar og hentungar til mælinga á grunnvatnsborði.

Sex staðir í borginni hafa verið valdir fyrir rannsóknarborholurnar. Þeir eru:

  • Á malarplani við Hraunberg í Breiðholti
  • Á opnu svæði austan Réttarholtsskóla
  • Laugardalur við Engjaveg
  • Við gömlu vatnstankana við Stýrimannaskólann
  • Í jaðri malarplans á Skólavörðuholti
  • Á bílastæði við Landakotskirkju

Á ofangreindu tímabili búast við hljóðmengun á meðan á borun stendur en gert er ráð fyrir að borun hverrar holu taki innan við einn dag. Ummerki eftir boranirnar verða lítil. Gengið verður frá holunum á þann veg að þær séu lítt sýnilegar í umhverfinu og trufli ekki þá landnotkun sem er á þessum stöðum. Þær verða því aðgengilegar til eftirlits um ókomna tíð.