Brennisteinslykt vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun - viðgerð lokið

28. ágúst 2020 - 15:24

Vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun jókst styrkur brennisteinsvetnis í heitu vatni á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Búið er að finna bilunina sem varð þess valdandi að styrkur brennisteinsvetnis í heita vatninu jókst lítillega.

Svæðin sem um ræðir eru: Grafarholt, Norðlingaholt, Seláshverfi, Breiðholt, Kópavogur utan Lundarhverfis, Garðabær, þ.m.t. Álftanes, Hafnarfjörður og sumarbústaðarhverfi í Miðdalslandi (sjá meðfylgjandi kort).

Til að gæta ítrustu varkárni vilja Veitur benda fólki á að draga úr notkun heits vatns á framangreindum svæðum. Gott er að forðast staði þar sem gufa getur safnast upp í lokuðum rýmum, eins og óloftræstum sturtuklefum, eimböðum, þvottahúsum og almennt í litlum lokuðum rýmum þar sem heitt vatn rennur lengi og í miklu magni. Þetta á sérstaklega við um viðkvæma hópa.

Við töldum okkur hafa komist fyrir lekann í morgun en það reyndist ekki hafa verið rétt. Nú þegar við höfum komist fyrir bilunina getur það tekið hálfan sólarhring fyrir áhrif bilunarinnar að losna úr dreifikerfinu.

Mælingar hafa farið fram víða á svæðinu og hafa þær allar verið nokkuð undir viðmiðunarmörkum. Veitur eru í samstarfi við heilbrigðiseftirlit svæðanna og fylgjast vel með þróun mála, aukningin er ekki talin hættuleg heilsu almennings þó áhrifin geti verið óþægileg.

Við sendum frekari upplýsingar frá okkur um leið og þær liggja fyrir.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.