Breytingar á gjaldskrám Veitna

02. janúar 2022 - 15:23

Nú um áramótin verða breytingar gerðar á gjaldskrám Veitna sem eru undir nánu eftirliti hins opinbera vegna þar sem um er að ræða þjónustu sem rekin er á sérleyfi. Gjaldskrá vatnsveitu, þ.e. fastagjald og fermetragjald, verður óbreytt. Gjaldskrá vatnsveitunnar hefur lækkað um 21% að raungildi frá árinu 2014 þegar Veitur voru stofnaðar.

Gjaldskrá rafveitu, dreifingarhlutinn, hækkar um 7% nú um áramótin. Á undanförnum árum hefur gjaldskrá rafveitunnar verið lækkuð umtalsvert og er raunlækkun frá árinu 2014 er um 20% að teknu tilliti til hækkunar nú um áramót.

Gjaldskrá fráveitu fylgir breytingu á byggingarvísitölu og hækkar hún um 6,8%. Að teknu tilliti til þeirrar hækkunar hefur gjaldskrá fráveitu hækkað um 7% að raungildi frá árinu 2014.

Gjaldskrá hitaveitu hækkar um 2,4% nú um áramót en henni hefur verið breytt tvisvar á ári og var síðast breytt í júlí. Gjaldskrá hitaveitunnar hefur lækkað um 1,5% að raungildi frá árinu 2014 að teknu tilliti til núverandi hækkunar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.