Breytingar á hæð vatnsborðs í Elliðavatni

28. febrúar 2020 - 18:27

Vegna framkvæmda Veitna neðst í Elliðaárdal var vatnsborð Elliðavatns lækkað of mikið og fór það niður fyrir viðmiðunarmörk 19. febrúar síðastliðinn. Brugðist hefur verið við þessum mistökum og gert er ráð fyrir að yfirborð vatnsins verði aftur komið upp fyrir mörkin á næstu dögum. Viðmiðunarmörkin eru að vatnshæð Elliðavatns fari ekki undir 76,40 metra hæð yfir sjávarmáli en hún fór niður í 76,03.

Veitur hafa upplýst hagaðila og Hafrannsóknarstofnun er að kanna hugsanleg áhrif þessa á lífríki vatnsins.

Lækkað var í vatninu til að fyrirbyggja flóð í ánum sem gætu tafið framkvæmdir. Verkefnið í Elliðaárdalnum er háð ströngum tímamörkum svo það hafi sem minnst áhrif á lífríkið. 

Í þessum stóru framkvæmdum Veitna er verið að koma lögnum fyrir heitt og kalt vatn, rafmagn og ljósleiðara í jörðu undir Elliðaár.

Elliðavatn í núverandi mynd varð til við byggingu Rafstöðvarinnar við Elliðaár, sem var gangsett árið 1921. Í stíflunni við vatnið eru lokur til að stýra vatnshæðinni og síðustu áratugi hafa gilt vel skilgreind mörk um hæð vatnsborðs vatnsins.