Breyttur vinnutími - stórt skref í jafnréttismálum

16. nóvember 2017 - 17:35

Í dag urðu þáttaskil í jafnréttismálum hjá starfsmönnum vinnuflokka Viðhaldsþjónustu Veitna þegar vinnutíma þeirra var breytt. Hér eftir munu þeir að jafnaði hefja störf klukkan 8.20 og ljúka þeim um klukkan 16.15. Þessi breyting er seinni hluti vegferðar sem fyrirtækið hóf fyrir nokkrum árum og miðaði að því að gera vinnudag Viðhaldsþjónustu, sem þá var 10 tímar, fjölskylduvænan. Árið 2014 var vinnudagurinn styttur þannig að starfsmenn ynnu 7:30-16:25 og nú er hann 8:20-16:15. Með þessu er þeim starfsmönnum sem eiga börn á dagmömmu-, leikskóla-, og/eða skólaaldri gert kleift að sinna börnum sínum á morgnana og sækja þau að loknum vinnudegi. Breytt samfélag þar sem báðir foreldrar eru oftast þátttakendur á vinnumarkaði og taka jafnan þátt í barnauppeldi kallar sífellt meira á slíkar breytingar. Með þessu teljum við að við sköpum eftirsóknarverðari vinnustað til framtíðar þar sem fólk á öllum aldri getur sinnt þeim störfum sem vinnuflokkar Viðhaldsþjónustu hafa með höndum. Við vonumst til að geta orðið fyrirmynd annarra fyrirtækja á iðnaðarmannamarkaðinum á Íslandi þar sem 10 tíma vinnudagur er enn allt of algengur.