Dæla sett í borholu á Bakka - röskun á hitaveitu í Ölfusi

31. maí 2019 - 12:51

Heitavatnslaust verður í Ölfusi, og þar með Þorlákshöfn, á milli kl. 02:00 og 06:00 í nótt, aðfararnótt laugardags. Taka þarf rafmagn af dælustöðinni á Bakka á meðan unnið er í nýjum rafmagnstengingum sem nauðsynlegar eru áður en dæla verður sett í aðra borholuna sem fæðir hitaveituna í Ölfusi. Sjálfrennsli hefur verið í holunni hingað til. Við gerum ráð fyrir að vinnan taki tvær klukkustundir og að vatn verði aftur komið á kl. 04:00 en síðan tekur um tvær klukkustundir að ná upp fullum þrýstingi í kerfinu. Verkið er unnið að nóttu til svo notendur verði sem minnst varir við lokunina.

Dælan verður svo sett í holuna eftir helgi. Við hefjum vinnu við niðursetninguna mánudaginn 3. júní en verkið getur tekið allt að fjóra daga. Á  meðan á því stendur er hitaveitan rekin á einni borholu í stað tveggja og afkastagetan því minni en ella. Stórnotendur á svæðinu munu draga úr notkun hjá sér og sundlauginni verður lokað til að minnka áhrif á heimili. Veðurspá gerir ráð fyrir hæglætisveðri en við biðjum fólk að fara sparlega með heita vatnið þessa daga; láta ekki renna í heita potta eða taka langar sturtur, loka gluggum og hafa dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að hleypa ekki hita úr húsum.

Nýja dælan er liður í að auka afkastagetu hitaveitunnar í Ölfusi. Við höfum þegar endurnýjað stóran hluta hitaveitulagnarinnar frá Bakka að Þorlákshöfn. Notendur munu þó ekki verða varir við aukin afköst hitaveitunnar við þessar aðgerðir. Til að svo verði þarf að stækka dælustöðina á Bakka en það verður gert í haust.