Dagleg notkun á neysluvatni um 140 lítrar

03. febrúar 2020 - 13:49

Í nýútkominni skýrslu, Heimilisnotkun á neysluvatni, kemur í ljós að dagleg notkun á neysluvatni í nýlegum íbúðahverfum á höfuðborgarsvæðinu sé að jafnaði nálægt 140 L á hvern íbúa. Þrátt fyrir að hvati til vatnssparnaðar hérlendis hafi ekki verið eins mikill og í mörgum meginlöndum Evrópu, þá sýna mælingar engu að síður að neysluvatnsnotkun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur á undanförnum áratugum verið nokkuð nálægt því sem lægst var Evrópu árið 2004, eða á bilinu 120 til 170 l á íbúa á dag.

Mælingarnar voru gerðar á notkun íbúa í nýlegu og vel afmörkuðu íbúahverfi á höfuðborgarsvæðinu og niðurstöðurnar bornar saman við tölur úr eldri mælingum í Reykjavík og við notkun í nokkrum löndum Evrópu.  Almennt tíðkast ekki á Íslandi að mæla neysluvatnsnotkun hjá heimilum heldur er innheimt sérstakt vatnsgjald samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Upplýsingar um vatnsnotkun einstakra heimila er því ekki aflað með beinum hætti hjá vatnsveitum heldur er stuðst við mælingar í dælustöðvum sem sjá heilu hverfunum fyrir vatni. Séu stærri fyrirtæki eða stofnanir í hverfunum getur reynst erfiðara að áætla heimilisnotkun. Mælingarnar sem kynntar eru í skýrslunni höfðu til að bera þau gæði og þá nákvæmni sem til þurfti.

Notkun á neysluvatni og vatnsþörf getur verið breytileg milli landa, m.a. vegna mismunandi aðgengis að hreinum vatnsauðlindum, veðurfars og ólíkri landfræðilegri legu, samfélagsgerða og samsetningu atvinnuvega og iðnaðar. Og eins og við er að búast er hún lægst í löndum þar sem markvisst hefur verið unnið að því að draga úr sóun íbúa á vatni, m.a. vegna þess að aðgangur að vatnsauðlindum er takmörkunum háður og framleiðslukostnaður hár. Löndin með hæstu íbúanotkunina eiga það hins vegar flest sammerkt að vera rík af vatnsauðlindum vegna landfræðilegra aðstæðna. Íslendingar búsettir á höfuðborgarsvæðinu hafa aðgang að náttúruauðlind með gnægð heilnæms vatns sem hingað til hefur verið ódýrt að afla og miðla.

Höfundar skýrslunnar, sem unnin er í samvinnu Veitna og Vatnsveitu Hafnarfjarðar, eru Urður Dís Árnadóttir, Bjarni Reyr Kristjánsson, Sverrir Guðmundsson, Gunnar Johnsen og Sunna Mjöll Sverrisdóttir.

Myndin með fréttinni er tekin í Vatnsendakrikum sem er eitt af vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk. 

Skýrsluna má finna hér.