„Dreginn verður lærdómur af málinu og verklagi breytt“

19. júlí 2017 - 18:27

Í dag héldu Veitur blaðamannafund þar sem fjallað var um viðgerðina á neyðarlokunni í dælustöðinni í Faxaskjóli, viðbrögðin við því þegar skólp fór í sjó, ónóga upplýsingagjöf og þær aðgerðir sem gripið verður til á næstunni. Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sagði við það tækifæri að gera hefði mátt betur í upplýsingagjöf til almennings á meðan á biluninni stóð og skólpi var veitt í sjó. „Við hefðum átt að tilkynna almenningi um bilunina strax, bæði beint og í gegnum fjölmiðla. Dreginn verður lærdómur af málinu og verklagi breytt.“ Með henni sátu fyrir svörum Hafliði Jón Sigurðsson, forstöðumaður rekstrar, Íris Þórhallsdóttir, tæknistjóri fráveitu og Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Veitna. 

Einnig var tæpt á öðrum málum, svo sem nauðsyn þess að skoða fleiri neyðarlokur sem settar voru niður á árunum 2014 og 2015. Olíumengun í læknum í botni Grafarvogs bar líka á góma og ræddar hugmyndir um settjörn fyrir botni Grafarvogs sem gæti tekið við mengun sem þessari.