Dregur úr heitavatnsnotkun – enn tvísýnt um helgina

31. janúar 2019 - 16:18

Upp úr hádeginu í dag dró úr heitavatnsnotkun úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Það er í fyrsta skipti frá því kuldakastið hófst um síðustu helgi. Spáð er kólnandi veðri fram yfir helgi og munu Veitur fylgjast grannt með stöðunni þar til hlýnar.

Yfirstandandi kuldakast er hvorki það fyrsta né það harðasta sem hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að mæta en viðbragðsáætlun Veitna, sem unnið er eftir, virðist hafa reynst vel. Í samræmi við hana var fólk upplýst um stöðuna fyrr en áður og það beðið um að fara vel með heita vatnið.

„Okkur þykir virkilega vænt um hversu vel fólk hefur brugðist við hvatningu okkar um að fara vel með heita vatnið,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna. „Það er áfram spáð kulda næstu daga og nú hafa líkurnar á að við þurfum að draga úr afhendingu á heitu vatni hér á höfuðborgarsvæðinu minnkað. Það er ekki síst almenningi að þakka.“