Fjölbreytt nám í Iðnum og tækni í vetur

19. september 2017 - 09:53

Iðnir og tækni, sem er samstarfsverkefni OR samstæðunnar og Árbæjarskóla, er nú starfrækt þriðja veturinn í röð. Um er að ræða valáfanga í 10. bekk Árbæjarskóla sem hefur það markmið að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknistörfum og kynna þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða. Einnig eru þeir fræddir um þær lífæðar samfélagsins sem vatn, rafmagn og fráveita eru og þeir öðlast þekkingu á umhverfismálum er snúa að auðlindum okkar og nýtingu þeirra. 

Námið er fjölbreytt og byggir á fræðslu, vettvangsferðum og verklegum æfingum. Margir starfsmenn Veitna og annarra dótturfyrirtækja OR hafa komið að kennslunni undanfarin ár og munu í vetur miðla efninu af áhuga og þekkingu. Í ár verður lögð sérstök áhersla á verklega kennslu; að nemendur fái að prófa að gera hlutina sem allra mest sjálfir. 

Námið fer fram í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi 1. Farið verður í vettvangsferðir og verður heimasíða verkefnisins og samfélagsmiðlar nýttir til að koma efninu frá sér (dagbók, viðtöl, video, ljósmyndir o.fl.).

Nemendur í Iðnum og tækni eru 17 talsins í ár, átta strákar og níu stelpur.