Fjórir nýir forstöðumenn hjá Veitum

09. janúar 2019 - 10:42

Veitur hafa ráðið nýja forstöðumenn í vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og í stefnu og árangri. Ráðningarnar koma í kjölfar nýrrar og metnaðarfullrar stefnumótunar fyrirtækisins sem framsækins þekkingar- og þjónustufyrirtækis sem er í forystu í nýsköpun og tækniþróun. Nýju forstöðumennirnir koma til með að leiða vegferð Veitna í áframhaldandi uppbyggingu hagkvæmra veitukerfa með öryggi, umhverfissjónarmið og langtímaþarfir viðskiptavina og samfélags að leiðarljósi.

Arndís Ósk Ólafsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður vatnsveitu.

Arndís Ósk lauk BS próf í umhverfis og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands 2004 og meistaragráðu í Water Resource Engineering frá Heriot Watt University í Edinborg 2006. Eftir námslok hóf hún störf hjá Hyder Consulting í Edinborg við hermun og hönnun fráveitukerfa 2006-2007 og vann við vatnsveituverkefni í Namibíu fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands.  Arndís Ósk var ráðin til Orkuveitu Reykjavíkur í lok árs 2007 sem verkefnastjóri og tók við sem fagstjóri vatnsveitu 2010 þar sem hún bar ábyrgð á rannsóknum og framtíðarsýn innan vatnsveitunnar.  Frá árinu 2017 hefur hún starfað sem tæknistjóri vatnsveitu.

Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fráveitu.

Guðbjörg Sæunn útskrifaðist með BS próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og með M.Sc próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Frá því hún lauk námi hefur hún starfað á framleiðslusviði Össurar, fyrst sem ferilseigandi á CNC renniverkstæðinu þar til hún tók við Öryggis- og umbótasviði framleiðslu og síðustu þrjú árin hefur hún starfað sem framleiðslustjóri Silikondeildar.

Hafliði Jón Sigurðsson hefur verið ráðinn forstöðumaður hitaveitu.

Hafliði Jón útskrifaðist með B.Sc í véla- og iðnverkfræði 2002 og M.Sc í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2004. Hann starfaði hjá Icelandair 2004-2007 sem hönnuður og verkefnastjóri og síðan sem deildarstjóri viðhaldsstýringar á árunum 2007-2015.  Á árunum 2015 – 2016 starfaði Hafliði Jón hjá Rhino Aviation sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála. Hann hóf störf hjá Veitum 2016 sem forstöðumaður Rekstrar.

Harpa Þuríður Böðvarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður stefnu og árangurs.

Harpa Þuríður lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla 2004. Þá stundaði hún meistaranám í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 2017. Harpa Þuríður starfaði í 14 ár hjá lyfjafyrirtækinu Actavis hér á landi, Norðurlöndunum og með dótturfyrirtækinu Medis á ýmsum erlendum mörkuðum. Hjá Actavis sinnti hún nokkrum störfum en lengst af sem starfsmannastjóri (Director, HR & Org. Development) fyrirtækisins á Íslandi.  Á árinu 2018 starfaði hún sem verkefnastjóri stefnumótunar á skrifstofu ráðuneytisstjóra í velferðarráðuneytinu.