Fráveitusjá Veitna komin á vefinn

29. desember 2017 - 14:27

Veitur hafa sett Fráveitusjá á vef fyrirtækisins. Þar er hægt að sjá hvort verið sé að hleypa óhreinsuðu skólpi í sjó um neyðarlúgur dælu- eða hreinsistöðva í Reykjavík. Einnig eru upplýsingar um hvenær og hversu lengi neyðarlúgurnar voru síðast opnar í viðkomandi stöð. Í  dælu- og hreinsistöðvum er búnaður sem sendir boð þegar neyðarlúga er opnuð eða henni er lokað og flytjast upplýsingarnar í Fráveitusjána á vefnum svo til samstundis.

Með Fráveitusjánni er komið til móts við auknar kröfur almennings um upplýsingagjöf varðandi fráveituna. Fráveitusjáin virkar einnig vel í farsímum og spjaldtölvum. . Fráveitusjána má sjá á vefnum okkar, www.veitur.is/fraveitusja.Um er að ræða fyrstu útgáfu Fráveitusjárinnar en í þeirri næstu verður einnig hægt að sjá þegar stöðvar fara á yfirfall og hvenær yfirfallsdælur eru í gangi.

Fleira fer í fráveituna en skólp

Í gegnum fráveitukerfið á höfuðborgarsvæðinu fer allt það sem sturtað er niður í salerni, sem og baðvatn, þvottavatn og hitaveituvatn frá ofnakerfum húsa sem er umtalsverður hluti skólpsins. Í eldri hverfum borgarinnar fer einnig ofanvatn í skólplagnir og endar því í dælustöðvum og hreinsistöðvum.

Við venjulegar aðstæður ráða dælustöðvarnar við að dæla öllu skólpinu áleiðis í hreinsistöð. Í mikilli úrkomu eða hláku getur komið upp sú staða að dælustöðvarnar ráði ekki við magnið sem í þær kemur. Þá fer umframmagnið á yfirfall og yfirfallsdælur dæla útþynntu skólpinu allt á haf út. Þegar bilanir, rafmagnsleysi eða viðhald stendur yfir í dælustöðvum opnast neyðarlúgur út í sjó. Þær opnast nálægt fjöru og því meiri líkur á mengun við strandlengjuna þegar slíkt gerist. Séu þessir möguleikar ekki til staðar, þ.e. að fara á yfirfall eða opna neyðarlúgur, er hætta á því að skólp flæði til baka inn á heimili fólks þegar álag er mikið, bilanir koma upp eða sinna þarf viðhaldi.  

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er tilkynnt þegar skólp fer í sjó frá dælustöðvum okkar um neyðarlúgur en það sér um vöktun á mengun á strandsjó. Við mælum með því að fólk sé ekki á ferðinni í fjörum eða í sjó alveg við dælustöðvarnar, skólp getur runnið fyrirvaralaust í sjóinn ef bilun verður.  

Veitur reka fráveituna í Reykjavík. Auk fráveitulagna um alla borg samanstendur hún af   dælustöðvum sem dæla skólpinu í hreinsistöðvarnar við Ánanaust, Klettagarða og á Kjalarnesi. Þar er skólpið grófhreinsað og því svo dælt langt út í Faxaflóa þar sem þau efni sem eftir eru dreifast eða brotna niður í sjónum. Í hreinsistöðvar Veitna fer einnig frárennsli frá Mosfellsbæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar.