Fróðleiksfúsir nemar Jarðhitaskóla SÞ í Deildartungu

07. ágúst 2018 - 15:46

Á þriðja tug nemenda frá 16 þjóðlöndum, sem stunda nám í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, heimsótti Deildartunguhver í júlí en eins og kunnugt er þjónar hverinn hitaveitu Akraness og Borgarness. Heimsóknin er hluti af vettvangsferð nemanna þar sem þeir kynna sér hin ýmsu jarðhitakerfi og er hún fastur liður í námi þeirra. Frá stofnun Jarðhitaskólans árið 1979 hefur ávallt verið staðið fyrir heimsóknum nemenda í Deildartungu þar sem þeir hafa skoðað hverinn og dælustöðina. Nemendur gerðu góðan róm að heimsókninni, voru uppnumdir yfir virkjuninni og þótti merkilegt að hægt væri að flytja vatn 64 km leið og skila því á áfangastað yfir 80°C heitu. Gissur Þór Ágústsson, svæðisstjóri Veitna á Vesturlandi, tók á móti hópnum og sagði hann fólkið fróðleiksfúst, áhugasamt og spyrja margra krefjandi spurninga. 

Í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna stundar nám fólk frá löndum þar sem möguleiki er á nýtingu jarðhita. Nemendur eru allir með háskólanám að baki, oft í jarðvísindum eða verkfræði. Lúðvík Georgsson er skólastjóri og hefur fylgt nær öllum hópunum í vettvangsferðir að Deildartunguhver frá upphafi. Í lok heimsóknar þakkaði Lúðvík góðar móttökur og boðaði komu sína að ári, þá með nýja fróðleiksfúsa nemendur sem endranær.

Mynd af FB síðu Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.