Fylgst með ástandi strandsjávar vegna lokunar hreinsistöðvar

28. október 2021 - 11:33

Viðhald á hreinsistöð fráveitu við Ánanaust gengur samkvæmt áætlun en það hófst 20. október og stendur yfir í þrjár vikur. Eins og búast mátti við mælist mengun við strendurnar í kringum Ánanaustin yfir viðmiðunarmörkum en ástand sjávar við Skerjafjörð og Nauthólsvík er eðlilegt enn sem komið er.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist sérstaklega með ástandi strandsjávar á meðan stöðin er óstarfhæf og tekur sýni samkvæmt áætlun og þróun mála. Einnig hafa Veitur fengið verkfræðistofuna Eflu í lið með sér til frekari sýnatöku. Niðurstöður rannsóknanna eru birtar á vef Veitna en þær liggja yfirleitt fyrir 2-3 sólarhringum eftir að sýni eru tekin.

Verið er að skipta um svokallað „trompet“ í hreinsistöðinni en það er nokkurs konar safnlögn þar sem straumar þriggja útrásardæla stöðvarinnar sameinast áður en hreinsuðu skólpinu er dælt um 4 km út á Faxaflóa. Þegar hreinsistöðin er ekki í rekstri, eins og nú er, er skólpinu dælt grófhreinsuðu í fjöruborðið við stöðina. Grófhreinsun felur í sér að allt rusl er fjarlægt úr skólpinu og með því er komið í veg fyrir að það endi í fjörum.

Veitur láta fylgjast með ástandinu í fjörunum á meðan á lokuninni stendur og hreinsa þær ef á þarf að halda. Rétt er að minna á að klósett eru ekki ruslafötur, í þau á ekkert að fara nema líkamlegur úrgangur og klósettpappír.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.