Glatvarmi á Grundartanga nýttur í hitaveitur?

10. júní 2021 - 13:20

Elkem Ísland, Veitur og Þróunarfélag Grundartanga ætla í sameiningu að kanna fýsileika þess að nýta varmann sem myndast í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga til að efla hitaveitur Veitna á Vesturlandi. Gestur Pétursson framkvæmdastjóri Veitna og Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem Ísland samt Ólafi Adolfssyni, stjórnarformanni Þróunarfélags Grundartanga hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Þórdís Kolbrúna Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamál- og nýsköpunarráðherra var viðstödd undirritunina sem fram fór í húsakynnum Elkem á Grundartanga.

Gríðarlegur hiti myndast við bræðslu málma í ofnum Járnblendiverksmiðjunnar og nú fer hann að mestu leyti til spillis. Á sama tíma leita Veitur leiða til að efla hitaveitu sína á Vesturlandi, sem þjónar Akranesi, Hvalfjarðarsveit og mörgum byggðum Borgarfjarðar. Helsta uppspretta heits vatn í veitunni er Deildartunguhver. Hann er fullnýttur og Veitur hafa horft til ýmissa átta til að svara vaxandi eftirspurn á svæðinu.

Víðar hiti en neðanjarðar

„Við getum leitað varma víðar en ofan í jörðinni,“ segir Gestur Pétursson framkvæmdastjóri Veitna. „Ofnarnir á Grundartanga eiga að geta kynt hús á Skaganum og jafnvel sunnan Hvalfjarðarins,“ bætir hann við. Hann vísar til langtímasýnar Veitna um hitaveiturekstur á Suðvesturlandi en lykilatriði hennar er að leita fjölbreyttari uppsprettna varma og að tengja saman helstu veitusvæði í öryggisskyni. „Eldgosið við Geldingadali minnir okkur á að það er ekki áhættulaust að virkja eldfjöll. Við verðum að horfa til langs tíma í hitaveitumálum og með heildarhagsmuni íbúa á stórum svæðum að leiðarljósi.“

Einnig samstarf um kolefnisjöfnun

Við sama tilefni var undirrituð viljayfirlýsing milli Carbfix, systurfyrirtækis Veitna, Elkem Íslands og Þróunarfélagsins um að nýta kolefnisförgunaraðferð Carbfix til að kolefnisjafna starfsemi Elkem eða jafnvel að hagnýta koldíoxíð sem losnar við hana. Verkefnin er liður í því að gera Ísland að kolefnishlutlausu samfélagi, bæta orkunýtni, nýta umframorku í raforkukerfinu, minnka losun gróðurhúsalofttegunda, auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, efla orkuskipti, stuðla að grænni nýsköpun og efla rannsóknar- og þróunarstarf. 

Um verkefnin segir Ólafur að vonir standi til að verkefnin geti skapað umtalsverð verðmæti á komandi árum. Það sé hluti af uppbyggingu græns iðn- og auðlindaklasa á Grundartanga og niðurstöðurnar muni nýtast á fleiri iðnaðarsvæðum á landinu. Á Grundartanga er aðgangur að þeim efnisstraumum sem verkefnin þarfnast, þ.e. koldíoxíði og glatvarma frá iðnaði, gott aðgengi að endurnýjanlegri umfram raforku og afar góð hafnaraðstaða.

 

Mynd: Frá undirskrift viljayfirlýsinganna.
F.v. Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, Edda Sif Arardóttir, framkvæmdastýra Carbfix, Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Ísland, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráherra, Ólafur Adolfsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi og Linda Björk Pálsdóttir, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar.