Grafið í kaldavatnslögn

30. október 2018 - 14:08

Við framkvæmdir verktaka gerðist það óhapp að grafið var í stofnlögn kalds vatns við Tanngarð, hús tannlæknadeildar Háskóla Íslands, um klukkan 13:00 í dag. Um er að ræða stóra lögn er fæðir Vesturbæ Reykjavíkur. Mikið vatn flæddi úr lögninni og hefur það valdið þrýstingslækkun í dreifikerfi kalda vatnsins í vestari hluta borgarinnar. Tilkynningar hafa borist um vatnsleysi á þessu svæði. 

Búið er að stöðva lekann og unnið er að því að ná þrýstingi í eðlilegt horf. 

Varað er við slysahættu vegna þess að einungis kemur heitt vatn úr blöndunartækjum. Ef þú þarft að sturta niður úr salerninu geturðu notað til þess heita vatnið. Gættu þess þó að það sé ekki alveg sjóðheitt því það getur sprengt postulín.

Þurfirðu neysluvatn meðan á kaldavatnsleysinu stendur, geturðu notað vatn úr heita krananum og kælt það. Brennisteinninn í vatninu getur valdið sumum óþægindum en er skaðlaus.