Hatari, Madonna og Måns minnka vatnsnotkun

19. maí 2019 - 15:39

Í gærkvöldi settist stór hluti íslensku þjóðarinnar niður fyrir framan sjónvarpsskjáina til að fylgjast með hinni árlegu Eurovision söngvakeppni. Söngvakeppnin er einn þeirra viðburða þar sem lesa má ýmsar upplýsingar um sameiginlegt hegðunarmynstur borgarbúa með því að skoða vatnsnotkun.
 
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er vatnsnotkun Reykvíkinga töluvert minni á meðan á keppninni stendur en á hefðbundnum laugardegi. Um hálftíma áður en útsending Eurovision hefst er fólk farið að nota minna vatn en þá er snemmbúinn fréttatími á dagskrá og fólk líklegast farið að koma sér fyrir við sjónvarpstækin. Vatnsnotkunin minnkar svo stöðugt allan tímann á meðan á keppninni stendur, tekur góða dýfu niður á við á meðan Hatari er á sviði sem og þegar úrslit eru tilkynnt. Við sjáum líka að vatnsnotkun minnkar nokkuð þegar Madonna flytur sitt atriði sem og þegar Måns Zelmerlöw stígur á svið, en hann þykir mikið sjarmatröll. Hvort það, eða tónlistarflutningur hans, sé ástæðan skal ósagt látið.

Vatnsnotkunin eykst í auglýsingahléum eins og búast má við en leiða má líkum að því að margir hafi nýtt tækifærið og létt á sér á meðan á þeim stóð. Þegar útsendingunni lýkur vex notkunin hratt og fer aftur upp í það sem eðlilegt má teljast á laugardagskvöldi. 

Verndum vatnið

Tölurnar að baki myndinni eru rennslismælingar úr kerfi vatnsveitu Veitna í Reykjavík sem fær allt sitt vatn úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Við erum svo heppin að þar er að fá nægt vatn fyrir alla borgarbúa til langrar framtíðar, jafnvel alveg þar til Ísland vinnur í Eurovison. Það á þó aðeins við ef okkur ber gæfa til að vernda þessa dýrmætu auðlind fyrir þeim fjölmörgu ógnum sem að henni steðja.