Hitaveituvatn í regnsvatnslagnir

25. nóvember 2019 - 14:06

Nú standa yfir prófanir á losun bakvatns hitaveitu í regnvatnslagnir fráveitu í Árbæ. Tilgangur tilraunanna er að meta hversu mikið af vatni, sem farið hefur í gegnum hitaveituna í hverfinu, er óhætt að losa án þess að hitastig í viðtaka breytist. Losunarstaðir vatnsins eru á 16 stöðum sem allir leiða út í annað hvort Elliðaár eða Grafarvog.

Stefnt er að því að hitastig bakvatnsins verði aldrei hærra en 15°C við útrás regnvatnslagnanna en frá þeim rennur regnvatn yfirleitt í opnum farvegum til sjávar eða í Elliðaárnar. Viðbúið er að gufa geti myndast við útrásir regnvatnslagnanna.  Gert er ráð fyrir að talsverð kæling verði á vatninu á leiðinni frá þeim og að hitastig vatnsins þegar það rennur í árnar og sjó verði sem næst hitastiginu í þessum viðtökum. Vel verður fylgst með hitastigi vatnsins á meðan á prófununum stendur.

Hitaveituvatnið í Árbæ er upphitað grunnvatn og hefur engin áhrif á lífríki í Elliðaánum og Grafarvogi.