Hreinar strendur - alltaf, er markmiðið

09. apríl 2018 - 11:45

Veitur hafa sett sér það markmið að strendur borgarinnar verði ávallt hreinar. Til þess þarf að breyta hönnun fráveitukerfisins þannig að bilanir í því eða reglubundið viðhald leiði ekki til þess að losað sé beint í sjó úr dælu- eða hreinsistöðvum.

Á laugardag bárust Veitum upplýsingar um rusl úr fráveitukerfinu í grennd við dælustöð fyrirtækisins við Faxaskjól. Starfsfólk hóf hreinsun í gær og var verkinu fram haldið í morgun. Haft er samráð við Reykjavíkurborg vegna hreinsunarinnar.

Hægt er að fylgjast með virkni hreinsi- og dælustöðva fráveitunnar í fráveitusjá Veitna á vefnum.

Markmiði Veitna var lýst í erindi Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sem er móðurfyrirtæki Veitna, á opnum ársfundi OR sem fram fór á dögunum. Hann sagði þar að hönnun fráveitukerfisins í Reykjavík megi rekja aftur til áranna í kringum 1980 en að notkun, kröfur og væntingar íbúa hafi breyst mikið síðan þá. Bjarni rakti í stórum dráttum forsendur þess að tryggja megi hreinar strendur undantekningalaust, en kerfið er stórt og sinnir hreinsun ekki bara frá Reykjavík heldur líka nokkrum nágrannasveitarfélögum.

Yfirskrift ársfundarins tengdist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem miðast við árið 2030. Bjarni sagði að hreinar strendur væru forgangsmál og vonandi tækist að leysa verkefnið mun fyrr en það geti orðið dýrt.