Jarðborinn Nasi ræstur í Bolholti

06. september 2020 - 13:02

Í vikunni munu framkvæmdir á lóð Veitna við Bolholt 5 í Reykjavík hefjast formlega þegar jarðborinn Nasi verður settur í gang. Um er að ræða vinnu við eina gjöfulustu heitavatnsborholu Veitna sem hefur þjónað borgarbúum frá árinu 1963.

Nú er svo komið að þrenging er í holunni og hrun sem veldur því að dregið hefur úr afköstum hennar. Því er nauðsynlegt að fara í framkvæmdina til að rýma, hreinsa og fóðra holuna áður en hún verður endurvirkjuð fyrir næsta vetur.

Áætlað er að borframkvæmdin sjálf taki um 4-6 vikur en borað verður á milli klukkan 07:00 og 19:00 alla virka daga. Í framhaldinu hefst vinna við dælubúnað og síðan frágang á svæðinu. Verklok eru áætluð í lok desember. 

Framkvæmdinni fylgir töluvert rask og hávaði, sérstaklega á meðan Nasi er að störfum. Við munum gera okkar allra besta til þess að verkið gangi hratt og örugglega fyrir sig þannig að við getum öll notið áfram þeirrar dýrmætu auðlindar sem heita vatnið okkar er. 

Nánari upplýsingar um framkvæmdina í Bolholti má finna á Framkvæmdasjá Veitna