Landsnet hækkar flutningsgjald rafmagns

10. ágúst 2017 - 10:21

Þann 1. ágúst síðastliðinn hækkaði flutningsgjaldið sem rafveiturnar í landinu innheimta fyrir Landsnet. Áhrifin hjá viðskiptavinum Veitna nema liðlega 2% á hverja kílóvattstund.

Landsnet hækkaði marga gjaldskrárliði sína um 8,5% um mánaðamótin að fenginni heimild Orkustofnunar. Gagnvart viðskiptavinum Veitna hækkar flutningskostnaður vegna þessa um 7,6%. Það birtist sem hækkun á rafmagnsreikningum frá Veitum úr 6,02 kr. í 6,15 kr. fyrir hverja kílóvattstund. Þann 1. desember síðastliðinn hækkaði Landsnet flutningskostnaðinn um 13% en um áramótin lækkaði gjaldskrá Veitna fyrir dreifingu rafmagns um 5,8%.

Á vef Landsnets er frétt um hækkunina.

Hér er skýringarmyndband um rafdreifikerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu.

Samsetning raforkuverðs í smásölu

Raforkuverð á smásölumarkaði er samsett úr nokkrum þáttum;

  • Söluverð raforkusala. Smásalar raforku eru sex talsins í landinu og starfa í samkeppni.
  • Dreifingarkostnaður rafveitna. Rafveiturnar starfa með sérleyfi. Viðskiptavinir geta því ekki valið sér rafveitu og verð fyrir þjónustu þeirra er undir eftirliti Orkustofnunar. Reiknivél Orkuseturs býður upp á samanburð á verði fyrir þjónustu rafveitna og raforkusala
  • Flutningskostnaður Landsnets. Þetta er eina flutningsfyrirtækið og sér um flutning rafmagns eftir háspennulínum eða -strengjum frá framleiðendum þess til notenda, annaðhvort beint til stórnotenda eða rafveitna, sem dreifa rafmagninu áfram til smærri notenda hver á sínu svæði. Gjaldskráin er undir eftirliti Orkustofnunar.
  • Skattar og opinber gjöld. Þau eru af þrennum toga; orkuskattur sem er sérstakur skattur á rafmagn og heitt vatn, jöfnunargjald sem notað er til að jafna dreifingarkostnað milli þéttbýlis og dreifbýlis og loks almennur virðisaukaskattur.

Verðskrá raforkudreifingar Veitna.