Lýsing á hluta kalda vatnsins

07. nóvember 2018 - 09:16

Veitur hefja á næstunni lýsingu á hluta af því kalda vatni sem höfuðborgarbúar fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því er dregið úr líkum á því að jarðvegsgerlar, sem borist geta í grunnar borholur við sérstakar veðuraðstæður, berist í vatnsveituna. Vatn úr einni gjöfulli en grunnri borholu fer í gegnum lýsingarbúnað. Holan gefur um 100 lítra á sekúndu sem er um fimmtungur heildarframleiðslu vatnstökusvæðisins.

Lýsingin felur í sér að vatnið rennur í gegnum útfjólublátt ljós sem drepur gerla sem í því kunna að vera. Þessi háttur er víða hafður á hér á landi, einkum þar sem vatn er tekið af yfirborði eða úr grunnum borholum. Ekki er talin ástæða til að lýsa vatn úr dýpri holunum í Heiðmörk þar sem aldrei hafa fundist gerlar. Sýnataka úr vatnsbólunum er tíð og gefur því glögga mynd af gæðum vatnsins.

Í hláku eykst hættan á að vatn af yfirborði berist í grynnstu borholurnar og beri með sér gerla. Það er þó fátítt en í janúar síðastliðnum fannst aukið magn jarðvegsgerla úti í vatnsdreifikerfinu í Reykjavík. Þá var ákveðið að kaupa lýsingartæki svo tryggja mætti fólki og fyrirtækjum í höfuðborginni nægt heilnæmt vatn. Lýsingin hefst að öllum líkindum í þessum mánuði og mun standa fram á vor. 

Myndin er tekin í Heiðmörk. Ljósmyndari: Hildur Ingvarsdóttir.