Met í heitavatnsnotkun í nóvember

05. desember 2017 - 15:21

Aldrei hefur meira verið notað af vatni úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu í nóvembermánuði en nú í ár. Mánuðurinn var enda frekar kaldur og stormasamur undir lokin. Um 90% af heita vatninu fer til húshitunar og í nóvember runnu tæpir níu milljarðar lítra af heitu vatni inn í hús frá Hafnarfirði í suðri til Mosfellsbæjar í norðri. Það er 15% meira magn en sama mánuð í fyrra.  

Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar var nóvember kaldur. Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,2 stig, -0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -2,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Augljóst samhengi er því á milli tíðarfarsins og heitavatnsnotkunarinnar.

Flestir aðrir mánuðir þar sem af er árinu 2017 hafa verið fremur hlýir. Engu að síður er heildarnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu nú í ár aðeins meiri en 2016. Þar ræður líklega miklu að talsvert er byggt og fleiri hús sem þarf að kynda. Mesta heitavatnsnotkun á einu ári var árið 2015. Það ár runnu 82,7 milljarðar lítra um æðar hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu.

Lágt verð

Verð á húshitun er lágt í Reykjavík og langt undir meðaltali höfuðborga grannríkjanna á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík. Við hitum heimilin okkar vel en verjum hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum okkar í það. 

Samkvæmt upplýsingum frá Samorku er árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu 88 þúsund krónur á ári. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þúsund krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári. Í þessum samanburði er stuðst við nýlegar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Íslensk heimili nota árlega að meðaltali 4-5 tonn af heitu vatni á hvern m2 húsnæðis. Til að spara og lækka reikninginn hjá sér er líklegt til árangurs að hafa hitakerfi og ofna rétt stillt fremur en til dæmis að fækka baðferðum. Ein baðferð kostar ekki mikið en hundrað- og þúsundkallarnir geta fljótt safnast upp ef bilun er í kerfi, ofnar rangt stilltir, illa er einangrað eða gluggar sífellt upp á gátt.

Þjóna 70% landsmanna

Heita vatnið sem notað er á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík (Laugarnesinu og Elliðaárdal) og hins vegar frá háhitasvæðum á Nesjavöllum og nýjasta viðbótin kom á árinu 2010 þegar heitavatnsframleiðsla hófst í Hellisheiðarvirkjun. 

  • Stærsta laugarker landsins er í Sundlaug Kópavogs. Það tekur um 1,7 milljónir lítra.
  • Magnið myndi duga til að fylla hana tæplega 50 þúsund sinnum, eða um 130 sinnum á dag.
  • Þá væri laugin auðvitað alltof heit!