Metnotkun á heitu vatni í september

11. október 2018 - 13:39

Metsala var á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í september sé litið til áranna frá 2014. Þá fóru 5578 milljónir rúmmetra til viðskiptavina, bæði heimila og fyrirtækja en fyrra met var sett í septembermánuði árið 2016 þegar notkunin var 4804 milljónir rúmmetra.  Ástæðan er auðvitað tíðarfarið en haustið hingað til hefur verið áberandi kalt. September var ágætur framan af en síðustu 10 daga mánaðarins kólnaði talsvert.

September er þó ekki eini mánuðurinn á þessu ári þar sem metin hafa verið að falla. Frá áramótum hafa met verið slegin í hverjum mánuði, að undanskildum mars mánuði sem jafnar met frá 2015 og apríl þegar notkunin var í meðallagi.

Aukin umsvif kalla á framkvæmdir, bæði í nýjum lögnum en ekki síður í endurnýjunum.  Í deiglunni eru stór verkefni sem snúa að því að tryggja afhendingaröryggi heits vatns á höfuðborgarsvæðinu. Ber þar hæst verkefni sem miðar að því að auka notkun heits vatns frá Hellisheiðarvirkjun í borginni og áframhaldandi vinna við endurnýjun Reykjaæða sem flytja vatn frá jarðhitasvæðunum að Reykjum og Reykjahlíð í Mosfellsbæ að vatnsgeymunum í Öskjuhlíð.  Árleg fjárfesting í hitaveitukerfi Veitna næstu árin er áætluð í kringum 3 ma.kr.