Miklar sveiflur í vatnsnotkun á leikdegi

17. júní 2018 - 15:07

Miklar sveiflur voru í notkun á köldu vatni hjá viðskiptavinum Veitna í Reykjavík í gær þegar leikur Íslands og Argentínu fór fram á HM í Rússlandi.Leikurinn hafði mikil áhrif á vatnsnotkunina megnið af deginum. Lesa má áhugaverðar upplýsingar um hegðun og atferli borgarbúa úr skráningu á því magni sem fór í gegnum vatnsveituna frá því kl. 09:00 um morguninn og fram eftir degi. Dökka línan sýnir notkun laugardaginn 9. júní og ljósbláa svæðið notkunina í gær. 

Ráða má af meðfylgjandi mynd að  Reykvíkingar hafi tekið daginn óvenju snemma. Vatnsnotkunin fyrri hluta dags er mun meiri en á venjulegum laugardegi. Leiða má líkum að því að fólk hafi farið í sturtu, þvegið þvott, vaskað upp og sinnt öðrum vatnstengdum erindum fyrr en vanalega svo þeim væri lokið áður en undirbúningur fyrir leikinn og áhorf á hann hófst 

Notkunin nær hámarki um klukkan 11 og eftir það minnkar hún hratt og hríðfellur svo rétt fyrir upphaf leiksins kl. 13:00. Á meðan á fyrri hálfleik stendur eykst spennan og vatnsnotkun minnkar mikið. Ef rýnt er í myndina má sjá þegar vatnsnotkun minnkar enn þegar mörk Argentínu og Íslands eru skoruð á 19. og 23. mínútu. Þegar flautað er til leikhlés eykst vatnsnotkunin mjög snögglega en minnkar svo hratt aftur þegar seinni hálfleikur hefst. Þegar leiknum lýkur kemur annar toppur í vatnsnotkun sem minnkar hratt og virðist sem margir hafi skellt sér á klóið og fylgst svo með umfjöllun um leikinn í um hálfa klukkustund eftir að honum lauk.  Eftir það kemst jafnvægi á vatnsnotkun borgarbúa.