Miklir möguleikar með notkun flygilda

03. nóvember 2017 - 10:22

Nýverið keyptu Veitur flygildi, eða dróna eins og þau eru oft kölluð. Með komu þess aukast möguleikar í umsýslu veitukerfanna nokkuð. Gögnin sem fá má úr flygildum eru í formi ljósmynda og myndbanda og með réttum hugbúnaði má t.a.m. búa til þrívíddarlíkön, gera magntöku- og gróðurþekjumælingar, finna hæðarpunkta og fá góða mynd af öllum aðstæðum á framkvæmdasvæðum.

Myndatökur með flygildum gagnast nú hjá Veitum í verkum sem eru á leið í hönnun og eru háð landhæð sem og í framkvæmdaverkum þar sem eru flóknar lagnir í jörðu og mikilvægt að eiga góð gögn áður en mokað er yfir. 

Ýmsar hugmundir eru uppi varðandi framtíðarnotkun tækisins hjá Veitum. Það auðveldar alla skoðun rafmagnslína í lofti, minnka akstur á landinu undir þeim og með viðbættri hitamyndavél má leita leka úr veitukerfunum og finna bilanir svo fátt eitt sé nefnt.

Ef mynd segir 1000 orð þá segir myndband eða þrívíddarlíkan eins og fá má úr flygildi 1.000.000 orð.

Myndin er af þrívíddarlíkani af aðveitustöð rafmagns.