Mosaflísar verðlaunaðar

28. nóvember 2019 - 14:40

Í dag voru veitt verðlaun fyrir MeMa - Nýsköpunarhraðal framhaldsskólanna en Veitur eru einn af aðalstyrktaraðilum verkefnisins sem miðar að því að nýta sköpunarkraft ungs fólks til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Í ár fólst áskorunin í því að búa til frumgerð vöru sem nýtist þegar tekist er á við áskoranir í loftslagmálum sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Kröfur sem gerðar eru til þeirra hugmyndar og frumgerðar sem hlýtur verðlaunin er að hún sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif á loftslagsmál og eigi möguleika á því að vera innleidd eftir frekari þróun.

Verðlaunahugmyndin að þessu sinni var Mosaflísar sem eru grænar klæðningar, unnar úr íslenskum mosa. Mosi getur tekið upp mikið af koltvísýringi úr andrúmsloftinu ásamt þungmálmum og öðrum mengunarefnum.  Markmiðið með flísunum er að stuðla að auknum loftgæðum í borgum og gera þær þannig umhverfisvænni og ánægjulegri að búa í. Hópurinn sem stóð að vinningstillögunni kemur frá Menntaskólanum í Reykjavík og í honum eru Jason Andri Gíslason, Júlía Sóley Gísladóttir, Kjartan Þorri Kristjánsson, Ólafur Heiðar Jónsson og Örn Steinar Sigurbjörnsson.  

Verkefnið fellur vel inn í þann ramma sem Veitur starfa eftir en við leggjum áherslu á að takast á við framtíðaráskoranir, þar á meðal umhverfismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda auk þess að efla tæknimenntun. Ragnheiður H. Magnúsdóttir, forstöðumaður Framkvæmda hjá Veitum, afhenti sigurliðinu verðlaunin sem nema einni milljón króna.