Náttúran kallar - þemadagar fráveitu

21. nóvember 2018 - 11:26

Í dag lifa á fimmta milljarð jarðarbúa án öruggs aðgangs að klósetti og þar af gengur hátt í milljarður manna örna sinna úti við. Um 80% af skólpi sem frá okkur mannfólkinu kemur flæðir því aftur út í umhverfið án þess að það sé meðhöndlað eða endurnýtt og mengar þar bæði vatn og jarðveg.  Áhrif þessa mikla magns af saur og þvagi hefur í för með sér víðtæk neikvæð áhrif, m.a.  á lýðheilsu, lífskjör, næringu, menntun og efnahag fólks um allan heim.

Þessa dagana standa yfir þemadagar fráveitu hjá Veitum í tilefni af alþjóðlegum klósettdegi Sameinuðu þjóðanna þann 19. nóvember. Í ár er þemað Náttúran kallar og er áhersla lögð á náttúrulegar lausnir þar sem  salerni og fráveitukerfi eru hönnuð þannig að þau vinni með vistkerfum jarðarinnar, m.a. með söfnun og meðhöndlun úrgangs sem svo er skilað aftur út í umhverfið.  Þannig má lágmarka mengun og koma í veg fyrir að verðmæt næringarefni fari til spillis. Meðhöndlaður úrgangur nýtist t.d. sem áburður á jarðveg sem borinn er á ræktarland. 

Í ár beina Sameinuðu þjóðirnar einnig augum að salernismálum þeirra er hafa góðan aðgang að klósettum og þar sem byggð hafa verið upp fráveitukerfi er færa úrgang frá íbúum út í sjó eða vötn.  Slík kerfi eru yfirleitt byggð upp með því hugarfari að koma úrganginum í lóg en endurnýting hefur víða ekki verið ofarlega á blaði.  

Rusl er stórt vandamál í skólpi víða um heim, líka hér á landi.  Notkun blautklúta hefur aukist gífurlega á síðustu árum og fjöldi fólks sér því ekkert til fyrirstöðu að henda þeim í klósettið ásamt ýmsu öðru rusli.  Allur heimurinn þarf að færa sig í átt að hringrásarkerfi þar sem næringarefnin eru nýtt til góðs. Til þess að það takist þarf úrgangurinn að skila sér án þess að vera blandaður rusli.

Náttúran kallar…eftir ábyrgri nýtingu á skólpi. Í því felst ekki bara endurnýjun kerfa svo endurnýting sé möguleg og sjálfbærni náð heldur líka að notendur sýni ábyrgð og setji ekki rusl í klósettið.