Neysluvatn öruggt þrátt fyrir fjölgun gerla

05. febrúar 2018 - 16:38

Í kjölfar mikillar hláku á fimmtudag og föstudag mældist fjölgun gerla í borholum á vatnstökusvæðum í Heiðmörk. Sýni voru tekin úr borholum á föstudaginn og niðurstöður lágu fyrir í dag en það tekur þrjá daga að rækta sýnin svo marktækt sé.

Það er niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Matvælastofnunar og embættis sóttvarnarlæknis að þrátt fyrir þetta sé neysluvatnið öruggt og að almenningur þurfi ekki að grípa til neinna sérstakra aðgerða vegna þessa.

Kerfisbundnar mælingar úr einstökum borholum hófust árið 2014. Rétt er að taka fram að þetta eru ekki mælingar úr lögnum til neytenda heldur úr stökum borholum. Gera má ráð fyrir töluverðri þynningu á gerlamagni á leið vatnsins til neytenda þar sem meirihluti vatnsins kemur frá holum sem eru hreinar.

Veitur hafa nú sett upp búnað sem lýsir vatn með útfjólubláu ljósi við eina borholu. Lýsingin drepur gerla í vatninu en hefur að öðru leyti engin áhrif á gæði þess. Búnaðurinn verður tekinn í tilraunarekstur á morgun. Samskonar búnaður er víða notaður í vatnsveitum en vatnsveitan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki þurf á slíkum búnaði að halda til þessa.

Veitur vinna nú að því að tengja djúpar borholur á öðru vatnstökusvæði við vatnsveituna og mun því verki ljúka í sumar. Yfirborðsmengun hefur ekki mælst í djúpholunum og má gera ráð fyrir því að gerlamengun í vatnsveitunni heyri sögunni til þegar það verkefni er í höfn.