Ný hreinsistöð í Borgarnesi - tímamót í fráveiturekstri Veitna

05. júní 2018 - 10:28

Í dag, þriðjudaginn 5. júní, verður formlega tekin í notkun ný hreinsistöð fráveitu Veitna í Borgarnesi. Borgarbyggð kemst þar með í hóp þeirra sveitarfélaga þar sem stærstu byggðarkjarnar uppfylla kröfur um skólphreinsun því fyrir eru fjórar lífrænar hreinsistöðvar Veitna í uppsveitum þessa eins víðfeðmasta sveitarfélags landsins.

Opnun stöðvarinnar markar einnig tímamót í fráveiturekstri Veitna því þar með lýkur átaki í uppbyggingu nýrra fráveitna fyrirtækisins sem náði til Akraness og Kjalarness auk Borgarbyggðar. Átakið hófst fyrir rúmum áratug en tafðist um hríð vegna efnahagshrunsins.

Opnunarhátíð síðdegis

Af þessu tilefni bjóða Veitur Borgnesingum til opnunarhátíðar við nýju stöðina klukkan 17 í dag. Gestum gefst kostur á að skoða mannvirkið og þau Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, og Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, flytja ávörp. Boðið verður upp á kaffi og með því.

Nýja hreinsistöðin stendur í Brákarey, vestast í bænum. Í henni eru hreinsuð öll gróf efni úr skólpinu og sandur og fita síuð frá því. Frá stöðinni liggur 700 metra löng lögn í sjó fram. Auk þeirra mannvirkja voru einnig lögð ný stofnræsi í bænum og tíu dælubrunnar sem dæla skólpi í hreinsistöðina frá gömlu útrásunum, sem voru í fjöruborðinu.

Uppbygging í uppsveitunum

Hönnun nýju fráveitunnar hófst árið 2006 og lagnavinna árin þar á eftir. Á árunum 2009 og 2010 tóku Veitur í notkun tveggja þrepa hreinsistöðvar á Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti. Allir þessir þéttbýliskjarnar standa inni í landi. Kröfur um skólphreinsun þar eru meiri en þar sem hægt er að losa hreinsað skólpið í sjó. Borgnesingar máttu þó bíða eftir að útbótum lyki. Þung fjárhagsstaða varð til þess að framkvæmdum var frestað í nokkur ár. Þráðurinn var tekinn upp að nýju árið 2015 og nú er uppbyggingunni lokið. Við tekur rekstur og viðhald þessara miklu mannvirkja sem koma íbúum Borgarbyggðar í hóp þeirra 77% landsmanna sem búa við skólphreinsun sem uppfyllir reglugerðarkröfur.

Veitur annast uppbyggingu og reka fráveitukerfi fyrir um 40% landsmanna; í Reykjavík og Akranesi auk Borgarbyggðar. Þá er skólp frá fráveitum í Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar hreinsað í hreinsistöðvum Veitna við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík. Veitur þjóna þannig um 60% landsmanna með fráveitu eða um átta af hverjum tíu landsmönnum sem búa við fullnægjandi fráveitu.

Klósettið er ekki ruslafata

Fráveitur eru dýr mannvirki, hvorttveggja í byggingu og rekstri. Það skiptir máli að umgangast þau á réttan hátt svo þau skili þeim árangri í umhverfismálum sem að er stefnt. Undanfarin misseri hafa Veitur bent á að klósett eru ekki ruslafötur. Í  þau eiga ekki að fara blautþurrkur, bindi, eyrnapinnar, tannþráður eða aðrar hreinlætisvörur. Mikil vinna og kostnaður felast í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Með því að minnka sorp í fráveitunni er hægt að lækka rekstrarkostnaðinn, sem skilar sér beint í vasa viðskiptavina.