Ný skýrsla um tengingu skipa við rafmagn í höfnum

20. ágúst 2019 - 10:37

Verkfræðistofan Efla hefur unnið hagræna greiningu á landtengingu við rafmagn fyrir skemmti- og flutningaskip í Sundahöfn. Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um aukna raforkunotkun skipa þegar þau liggja í höfn í tengslum við orkuskipti og loftslagsmál. Í aðgerðararáætlun stjórnvalda í orkuskiptum sem og aðgerðaráætlun í loftslagsmálum má finna umfjöllun um aukna raforkunotkun skipa og landtengingar. Að sama skapi hefur Reykjavíkurborg sett fram í loftslagsstefnu sinni að stefnt sé að rafvæðingu Faxaflóahafna. Í skýrslunni er farið yfir hagræna þætti slíkrar landtengingar frá sjónarhóli Veitna en ekki er lagt mat á kostnað við nauðsynlegar framkvæmdir í dreifikerfi Veitna við að auka orkuafhendingu í Sundahöfn.

Megin niðurstöður skýrslunnar eru þær að heildarkostnaður skemmtiferðaskipa af landtengingu er mun hærri, miðað við uppgefnar forsendur, en af því að nota jarðefnaeldsneyti. Verði skylda sett á skipin að tengjast með landtengingu, og tekjur miðaðar við afltaxta Veitna, verða þær ekki nægar til að standa undir nauðsynlegum kostnaði.