Nýtt tengivirki á Akranesi

18. janúar 2017 - 17:56

Framkvæmdum við nýtt tengivirki Veitna og Landsnets á Akranesi lauk vorið 2016 og var það tekið formlega í notkun við athöfn í dag, 18. janúar. Við þetta tilefni ávarpaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gesti og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, fluttu tölu. 

Nýja tengivirkið á Akranesi er staðsett við Smiðjuvelli 24 en gamla tengivirkið var á svæði sem nú hefur verið skipulagt sem íbúðarhverfi.

Byggingarframkvæmdir voru boðnar út 2014 og var samið við ÍAV um byggingu hússins og hófust framkvæmdir haustið 2014.  Uppsetning á rafbúnaði hófst hausti 2015 og húsið var fullklárað vorið 2016. 

Byggingin sem er um 1150 fm er 70% í eigu Veitna og 30% í eigu Landsnets. Rafmagn kemur til stöðvarinnar frá Brennimel og frá Andakíl eftir flutningskerfi Landsnets og við hana tengjast 45 dreifistöðvar (spennistöðvar), staðsettar vítt og breitt um bæinn.

Hönnun hússins var í höndum VSÓ Ráðgjafar og Stúdíó Strik Arkitekta. Verkfræðistofan Efla sá um verkeftirlitið og byggingastjórnun og Orkuvirki, framleiðandi 12kV rofabúnaðarins, sá um uppsetningu og prófanir. Aðrir verktakar sem komu að byggingunni voru RST Net, Þjótandi, NKT, Verkís, Lota, Landhönnun og Rafskoðun.

Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna segir að ánægjulegt sé að taka tengivirkið í notkun. „Það er mikilvægt fyrir okkar viðskipti hér á Skaganum að þetta mannvirki er komið í notkun. Samhliða byggingu þess uppfærðum við og gerðum endurbætur á dreifikerfinu í bænum. Ég ætla ekki að lofa miklu betra rafmagni í innstungur íbúa en áframhaldandi traustri og góðri þjónustu starfsfólks Veitna.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nýja tengivirkið komi til með að auka öryggi orkuafhendingar á svæðinu og bæta aðgang viðskiptavina að rafmagni.  „Með tilkomu þess verður staðan eins og best gerist á landinu. Aukið aðgengi að rafmagni og bætt öryggi er forsenda þess að raunhæft sé að skipta út mengandi orkugjöfum fyrir rafmagn. Á Akranesi eru tækifæri til orkuskipta bæði í samgöngum og atvinnulífinu sem vert er að skoða.“

Á myndinni eru Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.  Mynd: Guðni Hannesson.