Öryggiskeilan Finnur kynnir nýja Framkvæmdasjá Veitna

15. júlí 2020 - 16:01

Viðskiptavinir Veitna geta nú skoðað stærri framkvæmdir fyrirtækisins á nýrri framkvæmdasjá á vefnum. Markmiðið með nýrri framkvæmdasjá er að auka upplýsingagjöf, ekki síst til þeirra sem verða fyrir raski af völdum framkvæmda við veitukerfin sem aldrei hafa verið eins umfangsmiklar og í sumar. Í framkvæmdasjánni má finna upplýsingar um hvað verið er að gera, hvenær verkin hefjast, áætluð verklok, umfang og ábyrgðaraðila vilji fólk koma á framfæri athugasemdum.

 

Veitur fjárfesta í veitukerfunum fyrir um 9 milljarða árlega en stjórn fyrirtækisins ákvað að auka framkvæmdaféð um samtals 6 milljarða á þessu ári og því næsta til að fjölga störfum vegna víðtæks atvinnuleysis á tímum Covid-19. Því er ljóst að víða verður að finna starfsfólk og verktaka á vegum fyrirtækisins að störfum og að víða verður töluvert rask. Fæstir gera sér grein fyrir umfangi þeirra innviða og eigna sem Veitur bera ábyrgð á þar sem langstærstur hluti þeirra er neðanjarðar. Starfsemin teygir anga sína um allt suðvesturhornið og nær til yfir 70% íbúa landsins. Oftar en ekki verður fólk aðeins vart við starfsemina þegar framkvæmdir til að endurnýja lagnir, leggja nýjar eða bilanir koma upp og truflun verður á þjónustunni. 

Til að kynna framkvæmdasjánna verður farið í markaðsherferðina Finnur vinnur en Finnur er í mynd öryggiskeilu, eins og þær sem finna má allsstaðar þar sem Veitur grafa í jörð. Finnur er oftar en ekki fyrstur á staðinn þegar stinga þarf niður skóflu og sá síðasti sem yfirgefur vettvang. 

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna:

„Við sinnum auðvitað mjög mikilvægri þjónustu í almannaþágu og til að uppfylla okkar hlutverk sem best viljum við veita íbúum ítarlegar upplýsingar um þær framkvæmdir sem við stöndum í.“ segir Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna. „Með því að nota Finn til að vekja athygli á framkvæmdasjánni viljum við efla okkur sem þjónustufyrirtæki fyrst og fremst.“ Hann bendir á að Veitur hafa öryggið í öndvegi í allri sinni starfsemi og öryggiskeilan því augljós myndgerving fyrir framkvæmdir fyrirtækisins.„Við allar þær framkvæmdir sem Veitur fara í standa Finnur og félagar vaktina. Með því að fjalla um Finn og hans góða starf viljum við vekja athygli á því að á vefnum okkar, veitur.is geta íbúar fundið upplýsingar um framkvæmdir á þeirra svæði.“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.