Öryggismál verktaka í forgrunni

16. júní 2021 - 12:55

Öryggis- og heilsumál verktaka sem starfa fyrir Veitur hafa verið í forgrunni undanfarin misseri. Haldin eru námskeið fyrir starfsfólk fyrirtækja sem koma að framkvæmdum á vegum Veitna, hvort sem um er að ræða einyrkja eða stórfyrirtæki. 

Frá því í febrúar 2020 hafa ríflega 500 þátttakendur frá 90 fyrirtækjum lokið öryggis- og heilsunámskeiði Veitna. Sökum heimsfaraldurs hafa langflest námskeiðin farið fram með Teams fjarfundarbúnaði og hefur það auðveldað verktökum utan höfuðborgarsvæðisins að sækja þau. Starfsfólk Veitna heimsækir svo verkstaði þar sem þessir verktakar eru að störfum og tekur spjall um öryggismál á vinnustað. 

Boðið hefur verið upp á námskeið á íslensku og ensku og til stendur að bæta við námskeiðum á pólsku enda eiga öryggismál erindi til allra, og skiptir þar þjóðerni eða tungumál engu. Boðskapurinn þarf að komast til skila. 

Mynd frá öryggisnámskeiði við Deildartunguhver. 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.