Prófanir kerfa hafnar í nýrri hreinsistöð skólps á Akranesi

13. júní 2017 - 13:44

Framkvæmdum við nýja hreinsistöð skólps á Akranesi er nú að mestu lokið og byrjað er að hleypa á hana skólpi. Tæknimenn Veitna vinna nú hörðum höndum að prófun kerfa og fínstillingu þeirra með starfsfólki Varma- og vélaverks og Verkfræðistofunnar Eflu.

Verið er að keyra saman flókin kerfi þar sem hreinsibúnaður, dælur, nemar og önnur tæki og búnaður þurfa að vinna rétt hvert á móti öðru. Til þess að svo megi verða þarf að gæta þess að allar stillingar séu réttar og að búnaður virki sem skildi. Uppsetning og tenging nýs stýriskerfis við stjórnstöð Veitna í Reykjavík er einnig á lokametrunum en með því má vakta kerfið frá stjórnstöðinni sem og frá starfsstöðvum Veitna á Akranesi og í Borgarnesi. Verktakar eru þessa dagana að hefja yfirborðsfrágang á stígum og frágangi á lóð hreinsistöðvarinnar á Akranesi. 

Vonast er til að stöðin verði komin í fullan rekstur innan fárra vikna og verður þá hafist handa við að koma nýrri hreinsistöð í Borgarnesi í gagnið. Þar er nú unnið að því að leiðrétta hæðarlegu sjólagnar en ekki tókst að ljúka því verki síðasta haust eins og til stóð vegna óhagstæðra veðuraðstæðna. Auk þess er verið að þyngja sjólögnina á Akranesi og verja hana betur þar sem straumar á legustað hennar reyndust meiri en talið var þegar framkvæmdir hófust. 

Mynd: Lóðarfrágangur við hreinsistöð á Akranesi.