Pylsuvagninn færður vegna framkvæmda við spennistöð

28. júlí 2017 - 13:04

Með þéttingu byggðar fylgir oft mikið rask þar sem gera þarf endurbætur eða færa veitukerfi svo þau þjóni hlutverki sínu sem best. Slíkar framkvæmdir standa nú yfir í miðbæ Reykjavíkur þar sem ný hótelbygging krefst þess að spennistöð í Hafnarstræti sé endurnýjuð og færð um set innan reits.

Framkvæmdir Veitna við spennistöðina og bygging hótelsins hafa undanfarið þrengt mjög að starfsemi eins þekktasta veitingastaðar Reykjavíkurborgar, Bæjarnins bestu pylsum og hefur hann nú verið fluttur yfir götuna fyrir framan Hótel 1919. Gert er ráð fyrir að vagninn verði á þeim stað í nokkra mánuði en hægt verði, að framkvæmdum loknum, að koma honum aftur fyrir á horni Tryggvagötu og Póstshússtrætis þar sem hann hefur staðið í hátt í 80 ár. 

Myndin, sem Pétur Jónsson tók, sýnir þegar verið var að koma pylsuvagninum fyrir á nýjum stað.