Rekstur hafinn í hreinsistöð á Akranesi

13. júlí 2017 - 15:39

Búið er að gangsetja hreinsistöðina á Akranesi eftir vinnu við stillingar og prófanir undanfarnar vikur. Hreinsistöðin mun leysa af hólmi allar þær fjölmörgu útrásir sem hafa verið í fráveitukerfinu síðustu áratugi. Síðan 3. júlí hefur stöðin verið í gangi allan sólarhringinn.
 
Þó hafa dælubrunnar við Faxabraut og Hafnarbraut ekki verið tengdir við stöðina. Skólp sem mun verða dælt frá þeim rennur nú út um þær útrásir sem verið hafa í notkun síðustu áratugi. (Sjá kort). Að auki er útrás tengd tveimur húsum þar sem starfsemi er lítil, þ.e. Fiskmarkaðinum og útrás frá rotþró Sementsverksmiðjunnar. Gert er ráð fyrir að dælubrunnur við Faxabraut komist í gagnið þegar nær dregur haustinu og brunnurinn við Hafnarbraut verður gangsettur þegar fyrirtæki í bænum hafa lokið við að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að geta tengst hreinsistöðinni.

Í Borgarnesi eru prófanir á búnaði í nýrri hreinsistöð langt komnar. Gert er ráð fyrir að skólpi verði hleypt á hana í ágúst. Gera má ráð fyrir að stillingar og prófanir eftir það taki nokkurn tíma og að stöðin verði ekki komin í fullan rekstur fyrr en að þeim loknum.

Auk fráveituframkvæmda í Borgarnesi og á Akranesi byggja Veitur hreinsistöð skólps á Kjalarnesi. Þar eru prófanir á búnaði að hefjast og gert er ráð fyrir að sú stöð verði komin í rekstur í haust.