Ríflega 16% landsmanna henda rusli í klósett

07. maí 2020 - 13:23

Um 16,5% landsmanna segjast hafa hent blaut-og sótthreinsiklútum og öðru rusli í klósettið en 83,5% landsmanna segjast engu henda. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem gerð var fyrir Veitur fyrri hluta aprílmánaðar. Nýlega var greint frá því að skólphreinsistöð Veitna við Klettagarða í Reykjavík varð óstarfhæf um tíma þannig að beina þurfti óhreinsuðu skólpi í sjó vegna gríðarlegs magns af sótthreinsi- og blautklútum og öðru rusli sem hafði verið hent í salerni á veitusvæðinu og skapað mikið álag á búnað hreinsistöðvanna.

Netkönnun

Í könnuninni sem gerð var, dagana 3.-17. apríl sl., var haft samband við tæplega 3.000 íbúa,18 ára og eldri, af öllu landinu, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Spurt var hve oft þeir skoluðu tilteknum hreinlætisivörum niður um salernið. Tæplega 1.700 svör fengust og var svarhlutfallið 56,7%.  
Í ljós kom að fólk á aldrinum 35-44 ára er líklegra til að henda rusli í klósettin en aðrir aldurhópar og af þeim voru karlar líklegri en konur. Þrátt fyrir þann stóra hóp sem hendir snyrtivörum í klósettin sögðust um 94% svarenda vel upplýst um hverju megi skola þar niður. Karlar þekkja það þó marktækt verr en konur og fólk á aldrinum 18-24 ára verr en aðrir hópar.

Gríðarlegt magn 

Þótt prósentutölurnar kunni að sýnast lágar er ljóst að gríðarlegu magni rusls er skolað niður um fráveitukerfi landsmanna þegar haft er í huga hve margir notendur kerfanna eru. Eðli málsins samkvæmt er álagið mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir búa. Svo virðist sem magn rusls í fráveitunni hafi margfaldast undanfarið með fyrrgreindum afleiðingum fyrir búnað hreinsistöðvanna og umhverfið. Rusl sem berst með fráveitunni í hreinsistöðvar er sent til urðunar. Mun betra er að það fari beint í heimilissorpið en ekki í gegnum fráveituna með tilheyrandi álagi og skemmdum á búnaði sem hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir okkur öll.

Það er því ástæða til að ítreka hvatningu til fólks um að nota salernin ekki sem ruslafötur, en blaut- og hreinsiklútar og aðrar hreinlætisvörur eiga að enda í heimilissorpinu.