Samtaka nú!

23. maí 2021 - 12:30

Það er ljóst að landsmenn voru samtaka í klósettferðum á meðan á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva stóð yfir Ahoy höllinni í Rotterdam í gærkvöldi og þjóðin fylgdist spennt með þegar Daði og Gagnamagnið "stigu á svið". Það má glöggt sjá á tölum yfir rennsli á köldu vatni í vatnsveitu Veitna á meðan á útsendingu keppninnar stóð en notkunin minnkaði umtalsvert á meðan íslenska lagið var í loftinu. Stórir viðburðir sem þessi gefa áhugaverðar upplýsingar um sameiginlegt hegðunarmynstur borgarbúa og væntanlega landsmanna allra.
 
Leiða má líkum að því að skrifa megi sveiflur í notkun vatns, á meðan á söngvakeppninni stendur, á að fólk sé að létta á sér og sturta niður. Svo virðist sem nokkur fjöldi hafi séð ástæðu til að skreppa á klóið áður en myndbandið með framlagi Íslands,10 Years, var sýnt og hið sama var uppi á teningnum þegar laginu lauk. Á milli þessara tveggja toppa minnkar notkun á köldu vatni umtalsvert enda sátu margir límdir við skjáinn til að fylgjast með flutningnum.
 
Vatnsnotkun Reykvíkinga er yfirleitt töluvert minni þegar lokakeppni Eurovision stendur yfir. en á hefðbundnu laugardagskvöldi. Notkunin minnkar svo stöðugt þegar líður á kvöldið, og er með allra minnsta móti þegar íslenska lagið er flutt og svo aftur þegar úrslitin verða ljós. Þegar útsendingu keppninnar lýkur eykst vatnsnotkun og verður fljótt í samræmi við það sem gerist á venjulegum laugardagskvöldum. 

Tölurnar að baki myndinni eru rennslismælingar úr kerfi vatnsveitu Veitna í Reykjavík sem fær allt sitt vatn úr vatnsbólunum á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk.