Skipt um heitt vatn í vesturhluta Reykjavíkur

07. júní 2021 - 14:35

Hitaveita Veitna mun á morgun, þriðjudaginn 8. júní, breyta afhendingu heits vatns í þeim hverfum Reykjavíkur sem liggja vestan Elliðaáa, og á Kjalarnesi. Þau fá þá upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Með þessari aðgerð er allt höfuðborgarsvæðið komið á virkjanavatn en það léttir á vinnslu úr jarðhitasvæðunum svo hægt sé að tryggja sjálfbæran rekstur þeirra um ókomna framtíð og á sama tíma nýta betur framleiðslugetu virkjananna. Um tímabundna aðgerð er að ræða en ráðgert er að þessi tilhögun standi fram í seinni hluta júlímánaðar. Svipað fyrirkomulag hefur verið haft á afhendingu heits vatns í nokkrum hverfum undanfarin ár og hefur það gefist vel.
 
Notendur á þessum stöðum gætu orðið varir við einhverjar minniháttar truflanir á meðan skipt er yfir þótt það sé ekki líklegt. Þeir ættu þó ekki að finna mun á vatninu enda ekki marktækur munur á þessum tveimur tegundum heits vatns. Engar breytingar á hitastigi eða þrýstingi verða í hitaveitunni við skiptin.  
Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint úr holunum og inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn. 
 
 
Mynd: Hitaveitutankar á Reynisvatnsheiði. 
Þar hefur heitt vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum viðkomu áður en því er veitt út í hverfi borgarinnar. 
Myndina tók Atli Már Hafsteinsson.
 
 
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0 gCO2 ígilda á hverja heimsókn.