Stórar framkvæmdir við Reykjanesbraut

13. júní 2019 - 15:44

Veitur vinna nú að endurnýjun lagna frá Reykjanesbraut við Sprengisand í gegnum Elliðaárdalinn og upp með Rafstöðvarvegi. Um er að ræða fráveitulagnir, kaldavatnslagnir, hitaveitulagnir, raflagnir ásamt fjarskiptalögnum Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu. 

Fyrstu fjórir áfangar verksins eru nú í gangi beggja vegna Reykjanesbrautar, frá Bústaðavegi að Vesturlandsvegi. Framkvæmdunum fylgir nokkuð rask og sjást þær vel frá tveimur af umferðarþyngstu götum borgarinnar; Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi. 

Þegar lagnirnar verða lagðar undir að- og fráreinar Miklubrautar/Reykjanesbrautar verður reynt að halda truflunum á umferð í lágmarki en ekki er talið að koma þurfi til lokana. Hið sama á við þegar lagnir verða lagðar undir Reykjanesbrautina síðar í sumar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við þessa fyrstu áfanga standi yfir fram í nóvember 2019.