Það er óþarfi að kynda allan heiminn!

21. febrúar 2019 - 16:28

Í gær settu Veitur nýja auglýsingaherferð í loftið sem ætlað er að minna fólk á að fara vel með heita vatnið. Herferðin kallast "Það er óþarfi að kynda allan heiminn" og Í henni er sýnt á myndrænan hátt hvernig varmi tapast úr híbýlum okkar eftir ýmsum leiðum. Mikilvægt er að nýta heita vatnið vel, það skilar sér í budduna hjá viðskiptavinum; bæði með minna keyptu magni af heitu vatni sem og í betri rekstri hitaveitunnar, sem til lengri tíma litið skilar sér einnig í lægri orkureikningi. Auk þess er það skylda okkar allra að ganga vel um auðlindir landsins sem jarðhitinn svo sannarlega tilheyrir.

Íslensk heimili nota árlega að meðaltali 4-5 tonn af heitu vatni á hvern m2 húsnæðis. Um 90% af notkuninni eru vegna húshitunar. Til að minnka heitavatnsnotkunina og lækka orkureikninginn liggur því beinast við að skoða vel hvernig við nýtum heita vatnið sem best til húshitunar.

Það er óþarfi að kynda allan heiminn!

Góð ráð til að nýta heita vatnið betur:

  • Látið fagmann stilla hitakerfið.
  • Notið lofthitastýrða ofnloka til að jafna innihitann.
  • Farið yfir þéttleika og einangrun glugga og hurða.
  • Lokið gluggum þegar kalt er úti.

Gott er að hafa í huga að auðvelt er að gera ofn óvirkan með því að byrgja hann með húsgögnum, sólbekkjum og gluggatjöldum. Ef ekki er hugað að þessu kemst hiti illa út í herbergið þar sem ofnloki lokar fyrir rennsli þegar hitastig bakvið húsgögnin hefur náð innstilltum herbergishita.

Á Mínum síðum Veitna geta viðskiptavinir nálgast yfirlit á sinni heitavatnsnotkun. Þar er einnig að finna reiknivél sem ber saman þína notkun við meðalnotkun sambærilegs heimilis.